Seigla, 8.-10. ágúst 2025

Seigla er kammertónlistarhátíð í Hörpu sem býður upp á fjölbreytta viðburði þar sem hið hefðbundna tónleikaform er brotið upp. Hátíðin fer fram árlega aðra helgina í ágúst.

Á þessu ári býður Seigla upp á fjölbreytta dagskrá sem varpar ljósi á þemað frásögn.  Við bjóðum hlustendum og flytjendum að túlka þemað á sem fjölbreyttastan og persónulegastan hátt og frá alls kyns sjónarhornum, hvort sem um ræðir hvernig tónleikaupplifunin sjálf getur skapað sameiginlega frásögn milli flytjenda og áhorfenda eða hvernig tónlistin ber sjálf með sér frásögn að einhverju leyti. Tónlistin, texti, rýmið eða samskipti gætu orðið hluti af stærri frásögn en hugmyndin getur bæði verið skýr og afmörkuð eða tilraunakennd og opin.

Söngkonurnar Guja Sandholt og Bryndís Guðjónsdóttir opna hátíðina með því að taka áhorfendur með í leiðangur sem kannar tónlist eftir kventónskáld sem heyrist sjaldan hér á landi, þar sem efnisskrá þeirra varpar ljósi á upplifun kvenna í tónlistarheiminum og hve lítið við vitum í raun um tónlist sem konur hafa samið í gegnum tíðina.

Á laugardaginn höldum við upp á Pride í Reykjavík, og hvetjum alla gesti Seiglu til að taka þátt í göngunni og öðrum viðburðum Pride, en að koma einnig í Hörpu á viðburði Seiglu á laugardagseftirmiðdegi. Um kvöldið verður flutt margbrotin einþáttungsópera Poulencs af söngkonunni Kristínu E. Mäntylä, sem verður ómögulegt að láta framhjá sér fara. Síðar um kvöldið kemur fram hópur frá London, Temporal Harmonies Inc, og flytur einstaklega spennandi tónleika sem bjóða áhorfendum upp á að skapa eigin tónlist í gegnum grafíska nótnaskrift sem verður flutt í síðari hluta tónleikanna.

Á sunnudaginn fer kammerhópurinn Stundarómur með fjölskyldutónleika þar sem þau flytja eigin útsetningar á þjóðsögum ásamt frumsaminni sögu og tónlist. Hátíðarhelginni lýkur með aldarafmæli okkar landsþekkta skálds Thors Vilhjálmssonar, þar sem fara meðal annars fram frumflutningar á nýjum verkum eftir Maríu Huld Markan og Hauk Tómasson sem samin eru við texta Thors og verða flutt af Kima Ensemble.

Hátíðardagskrá Seiglu í ár fer að miklu leyti fram í Norðurljósum,  en svo verða fjölskyldutónleikar Stundaróms og aðrir opnir viðburðir í Hörpuhorni. Að lokum er öllum gestum og aðstandendum Seiglu boðið í lokahóf eftir helgina þar sem gefst tækifæri til að skála með og kynnast betur flytjendum og fólkinu bakvið hátíðina sem og hollvinum og bakhjörlum Seiglu.


Um hátíðina

Bakhjarlar


Hollvinir

Seigla og Listaháskóli Íslands

Seigla og Royal Academy






Skipuleggjendur Seiglu




Erna Vala
Þorgrímur
Þorsteinsson
Lee Marable
Erla Rut
Árnadóttir
Pétur Ernir
Svavarsson