Kristín Sveinsdóttir




Kristín Sveinsdóttir hóf að syngja árið 1997 með Krúttakór Langholtskirkju. Síðan þá söng hún með öllum kórum kirkjunnar og kom þar oft á tíðum fram sem einsöngvari undir stjórn Jóns Stefánssonar. Kristín lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík haustið 2013 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur en á Íslandi hefur Kristín einnig sótt söngtíma til Sigríðar Ellu Magnúsdóttur. Eftir tónleikaferð með Biophilia plötu Bjarkar Guðmundsdóttur hóf Kristín árið 2014 nám í klassískum söng við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Kristín tók sér rúmlega ársleyfi frá skólanum í Vín til að syngja við óperustúdíóið Accademia del Teatro alla Scala í Mílanó. Hún kom fram sem einsöngvari á ýmsum tónleikum og óperuuppfærslum á Scala, m.a. sem 2. dama í Töfraflautunni eftir Mozart undir stjórn Adam Fisher, á árlegum jólatónleikum La Scala undir stjórn Franz Welser Möst og í uppfærslu á Der Rosenkavalier eftir Strauss undir stjórn Zubin Mehta. Kristín sneri aftur til Vínarborgar eftir tímann í Mílanó til þess að ljúka námi sínu og kom reglulega fram sem einsöngvari í skólaverkefnum og víðar.

Kristín hefur verið búsett á Íslandi frá 2020 og er ein stofnenda Kammeróperunnar. Hún starfar sem kennari, er meðlimur í Kammerkvartettinum, Barbörukórnum og kemur reglulega fram sem einsöngvari við ýmis tilefni, á tónleikum og í óperusýningum. Kristín mun syngja hlutverk Cherubino í nýrri uppfærslu Kammeróperunnar á Brúðkaupi Fígarós sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu 30. janúar. Einnig mun Kristín koma fram í fyrsta skipti sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á Óperuveislu með Ólafi Kjartani í Eldborg 3. og 4. apríl á næsta ári. 





KRISTÍN KEMUR FRAM Á
Bergmál norðursins