Júlíanna Ósk Hafberg




Júlíana Ósk Hafberg: Sköpunin mín er fljótandi, flæðandi og sívaxandi – eins og mosinn og fruman og sjórinn. Ólíkt stífu samfélagi okkar með allar sínar óskrifuðu og skrifuðu reglur, og ferhyrndar byggingar, með ferhyrndum hurðum og ferhyrndum gluggum. Ég vel litina sem mér var sagt að væru of stelpulegir og ég sauma út eins og amma kenndi mér. Þeir töldu henni trú um að það væri ekki alvöru list. Ég skrifa tilfinningarík orð og hengi tárin mín upp fyrir alla að sjá. Mér var alltaf sagt að reyna að fela þau eins og ég gæti. Ég mála líkama konunnar og skil hlutgervinguna eftir við dyrnar. Ég reyni að fanga þetta óræða og óséða með þráðum og litum; tilfinningarnar mínar, hugsanir mínar. Ég vinn út frá innsæi og fegurð, en svo vilja þau alltaf að ég rökstyðji allt. ‚Vertu það sem þú vilt sjá meira af í heiminum‘ sagði einhver, og ég umbreyttist í óendanlega mýkt og umhyggju. Í verkum mínum kanna ég hina mannlegu upplifun í nútímasamfélagi. Sérstaklega frá sjónarhorni konunnar, þar sem það er mitt eigið. 

Djúpstæð þrá okkar að tilheyra í einstaklingshyggðu kapítalísku samfélagi. Okkar eigin tilfinningaúrvinnsla á tímum þar sem gamlar hugsanir og venjur eru tekin úr gildi. Sjálfhverf meðvitund okkar sem hugsanleg áhrif vaxandi trúleysi okkar. Líkami okkar sem lifandi, andandi, síbreytileg vera, án hlutgervingar og kyngervingar. Þörfin okkar fyrir fegurð og umhyggju í hröðum og hörðum heimi. Ég nota liti, form, áferð og efni til að kanna og tjá viðfangsefnin mín og hugsanir, og nýti mér miðla og aðferðir eins og málverkið og textíl, trésmíði og glerskurð, skrif, teikningu og skúlptúr. Júlíanna útskrifaðist með MA gráðu í Myndlist 2023. Einnig hefur hún gráðu frá skapandi leiðtoga- og verkefnastjórnunar skólanum Kaospilot í Árósum, Danmörku, þar sem hún lærði allt frá leiðtogahæfni, teymisvinnu og framkvæmdarferlum til tilfinninganæmni og upplifunarhönnunar. Júlíanna hefur síðan BA gráðu í fatahönnun með áherslu á textíl. https://juliannahafberg.com/





JÚLÍANNA KEMUR FRAM Á
Bergmál norðursins