Seigla 2025
Opið kall

Opið fyrir umsóknir til 25. mars 2025

Við tökum nú við umsóknum frá tónlistarfólki sem hefur áhuga á að vera með á Seiglu 2025. Umsóknartímabilið stendur yfir frá 12. mars til og með 25. mars 2025. Sækið um hér.


Seigla 8.-10. ágúst 2025


Seigla fer næst fram í Hörpu helgina 8.-10. ágúst 2025.
Tónleikar fara fram í Norðurljósum og opnum rýmum Hörpu.

Seigla er kammertónlistarhátíð sem á heima í Hörpu og hefur verið starfrækt þar síðan 2021. Seigla leggur áherslu á viðburði þar sem hið hefðbundna tónleikaform er brotið upp og jafnvel boðið upp á eitthvað öðruvísi upplifanir en venjan er á klassískum tónleikum. Eitt af markmiðum Seiglu er að skapa samfélag í kringum tónleikasóknina, þar sem gestum og flytjendum líður sem hluti af heild. Þá beitir Seigla sér fyrir auknu aðgengi að klassískri tónlist á Íslandi, nýsköpun og stuðningi við íslenskt tónlistarfólk og tónlistarlíf, jafnrétti og samstarfi á starfsvettvangi þess.

Í ár verður Seigla áfram í samstarfi við doktorsrannsókn við Royal Academy of Music í London. Rannsóknin snýr að sambandi flytjenda og áhorfenda og er haldið úti af Ernu Völu Arnardóttur, listrænum stjórnanda og stofnanda Seiglu. Flytjendum Seiglu verður boðið að taka þátt í verkefnum á vegum rannsóknarinnar.


Þema opins kalls 2025: Frásögn


Þema umsókna sem við óskum eftir í ár er „Frásögn“. Við bjóðum umsækjendum að túlka þetta þema á sem fjölbreyttastan og persónulegastan hátt. Nálgunin getur verið frá alls kyns sjónarhornum, hvort sem um ræðir hvernig tónleikaupplifunin sjálf getur skapað sameiginlega frásögn milli flytjenda og áhorfenda eða hvernig tónlistin ber sjálf með sér einhverja frásögn. Tónlistin, texti, rýmið eða samskipti gætu orðið hluti af stærri frásögn en hugmyndin getur bæði verið skýr og afmörkuð eða tilraunakennd og opin.

Dagskrá ársins 2024 er enn aðgengileg hér á vefsíðu Seiglu til að gefa mynd af hvers konar viðburðir hafa farið fram á hátíðinni áður fyrr. Seigla er líka bæði á Facebook og Instagram þar sem hægt er að sjá hvaða verkefni hafa farið fram síðastliðin ár.


Umsóknarferlið

Til að fylla út umsóknina þarf eftirfarandi að fylgja:

•    Lýsing á verkefni
•    Efnisskrá
•    Upplýsingar um flytjanda/flytjendur
•    Hlekkir á fyrri upptökur

Það er einnig rými til að bæta við öðrum upplýsingum sem gætu til dæmis verið portfolio eða CV, hlekkir á umsagnir eða vefsíður og annað ef vill, en það er ekki nauðsynlegt.

Algengar spurningar og svör má finna neðst á umsóknarsíðunni. Við mælum með því að lesa í gegnum þær áður en umsóknin er fyllt út. Ef fleiri spurningar brenna ykkur á hjarta er velkomið að senda spurningar til Seiglu á samfélagsmiðlum eða til Ernu Völu á ernavala@gmail.com.


Skipulagsteymi Seiglu:


Erna Vala Arnardóttir, listrænn stjórnandi
Pétur Ernir Svavarsson, verkefnastjóri
Lee Marable, grafískur hönnuður
Erla Rut Árnadóttir, fjármálastjóri
Þorgrímur Þorsteinsson, tónmeistari