Herdís
Ágústa Linnet




Herdís Ágústa Linnet hefur síðustu fimm árin stundað nám í klassískum píanóleik við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi (Kungl. Musikhögskolan) undir handleiðslu prof. Anders Kilström og prof. Stefan Bojsten. Hún lauk bakkalárnámi sumarið 2022 og leggur nú lokahönd á meistaranám sitt sem lýkur á þessu ári, 2024.  Áður en haldið var út í nám, stundaði Herdís píanónám við Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskólann í Reykjavík/Menntaskóla í tónlist, hjá Brynhildi Ásgeirsdóttur og Svönu Víkingsdóttur. Hún hefur komið fram sem píanisti með kór Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi, á tónleikum Kammersveitarinnar Elju í Iðnó, leikið tónlist með tríói sínu, Tríó Esja, í Dómkirkjunni, og komið fram á tónlistarhátíðinni Seiglu, sumarið 2023. Hún kom fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins haustið 2023 þar sem hún flutti píanókonsert Edvard Griegs. Tónsmíðar, leikhús, jazztónlist og dans eru einnig ástríða Herdísar og innblástur er sóttur frá þeim sviðum. Nokkur kórverk hafa verið flutt eftir hana í Stokkhólmi. Herdís hefur margsinnis leikið á bæði trompet og píanó/celestu með ungsveit sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún hefur einnig kennt á trompet við Skólahljómsveit Kópavogs ásamt því að vera fyrrum meðlimur Hamrahlíðarkórsins sem sungið hefur meðal annars með Björk Guðmundsdóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Herdís hlaut styrk úr minningarsjóði um Birgi Einarsson apótekara til píanónáms, sumarið 2023, og frá Den Nordiska Första S:t Johannislogens Jubelfond vorið 2024, sem styrkir ungt framúrskarandi listafólk í ólíkum listgreinum.




HERDÍS KEMUR FRAM Á
Trompetinn og mannsröddin