Guja Sandholt
sópran
Guja Sandholt býr í Reykjavík og Amsterdam og starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Á undanförnum árum hefur hún komið víða fram í Hollandi og víðar, m.a. í Concertgebouw í Amsterdam, Fílharmóníunum í París, Lúxemborg og Hong Kong; á Grachtenfestival, Holland Festival, Reykholtshátíð og Óperudögum. Nýlega söng hún hlutverk Leonore í uppfærslu Óperudaga á Fidelio-atlaga að óperu eftir Beethoven í leikgerð Bjarna Thors Kristinssonar; Elísabetu drottingu í Ríkharði III efti Sigurð Sævarsson í kynningaruppfærslu á óperunni; Juliu Child í súkkulaðikökuóperunni Bon Appétit! eftir Lee Hoiby; hlutverk söngvara í leikgerð Albertar Hoex á Mattheusi unga og Popovu í The Bear eftir William Walton. Sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á víkingaóperunni King Harald's Saga eftir Judith Weir og var í kjölfarið tilnefnd sem Söngkona ársins í sígildum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Guja hefur víða komið fram sem einsöngvari í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Verdi, Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Arvo Pärt, Messías eftir Handel, Gloriu eftir Vivaldi og Messu í C eftir Beethoven. Hún syngur einnig reglulega með Hollenska útvarpskórnum þar sem hún gegnir hálfri stöðu. Auk þess vinnur hún reglulega með Tríó Ljósu ásamt þeim Heleen Vegter, ljóðapíanista og Diet Tilanus, fiðluleikara.
Guja stundaði söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi.
guja kemur fram á
Sundur & saman