Ástríður Alda Sigurðardóttir




Ástríður Alda Sigurðardóttir lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur. Í kjölfarið stundaði hún nám hjá Reiko Neriki við Indiana University – Jacobs School of Music í Bloomington þar sem hún lauk Artist Diploma með hæstu einkunn. Hún hefur einnig sótt fjöldann allan af námskeiðum, og tímum í píanóleik og kammertónlist, hjá listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler. Ástríður hefur komið víða fram á tónleikum, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum. Árið 2015 kom hún m.a. fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í píanókonserti Jórunnar Viðar í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. Þá lék hún einleik í öðrum píanókonserti F. Chopin með hljómsveitinni á afmælisári tónskáldsins árið 2010. Af sama tilefni gaf hún út sólóplötuna Chopin (2010) sem inniheldur fjórar ballöður tónskáldsins auk sónötunnar í b-moll. Ástríður er meðlimur Elektra Ensemble, tónlistarflytjanda ársins 2020 úr flokki tónlistarhópa, sem fagnaði 10 ára starfsafmæli með útgáfu hljómplötunnar Elektra Ensemble (2019). 

Ástríður hefur einnig átt gjöfult samstarf við marga af fremstu söngvurum landsins í býsna fjölbreyttu verkefnavali. Allt frá íslenskum sönglögum eins og heyra má á hljómplötunni Aldarblik (2007) til íslenskra og finnskra tangóa eins og Fimm í tangó (2010) teflir fram. Núna síðast kom út undir merkjum belgíska útgáfufyrirtækisins Fuga.  Líbera Thorsteinson & Schumann (2021) í samstarfi við Andra Björn Róbertsson, bass-barítón sem hefur fengið frábæra gagnrýni. Samhliða starfi sínu sem sjálfstætt starfandi píanóleikari starfar Ástríður sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.





ÁSTRÍÐUR KEMUR FRAM Á
Bergmál norðursins