Erna Vala


Listrænn stjórnandi

​​
Erna Vala Arnardóttir er íslenskur píanóleikari og hefur áunnið sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir tónlistarflutning sinn. Hún hefur komið fram víða um Evrópu og Bandaríkin og hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands, fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA píanókeppninnar, Unga einleikara og Fulbright Fellowship. Erna Vala er stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Seiglu, sem haldin er árlega í ágúst í Hörpu á vegum Íslenska Schumannfélagsins, menningarfélags sem hún stofnaði árið 2020. 

Erna Vala hefur komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum og við virtar tónleikaraðir, bæði á Íslandi og erlendis. Þar má nefna Last Rose of Summer í Berlín, Ciclos de Lua Nova og Concertos Commentarios í Portúgal, Tíbrá í Salnum og Velkomin heim í Hörpu, meðal tónleika um land allt frá Ísafirði til Egilsstaða. Hún hefur verið virkur flytjandi kammermúsíkur og komið fram á hátíðum og tónleikum, svo sem Sígildum sunnudögum í Norðurljósum, Tíbrá, Menningarnótt í Hörpu, Á ljúfum nótum, UNM og NMD, meðal annars með Elju og Strokkvartettinum Sigga. Hún hefur verið gestalistamaður á hátíðum bæði á Ísafirði, í Washington D.C., Frakklandi, Berlín, Portúgal og London. Erna Vala lauk B.Mus. og diplómu í píanóleik frá LHÍ undir handleiðslu Peter Máté (2016/2017) og M.Mus. gráðu frá Síbeliusarakademíunni í Helsinki undir leiðsögn Hömsu Juris 2019. Nú síðast útskrifaðist hún með M.Mus.Edu. frá LHÍ vorið 2023. Hún hefur nú aðsetur í London og vinnur að doktorsgráðu í Performance Research við Royal Academy of Music. Rannsóknin hennar skoðar hvernig mynda má nánara samband tónlistarflytjenda og áhorfenda út frá sjónarhorni sínu sem tónlistarflytjandi og endurgjöf áhorfenda. Tónlistarhátíðin Seigla er vettvangur rannsóknarinnar. Hún er aðjúnkt og fagstjóri hljóðfæradeildar í tónlistardeild LHÍ frá 2025.


ERNA Vala á netinu:
Instagram
Facebook