Sigríður Ásta Olgeirsdóttir


Leikstjóri

Sigríður Ásta er ung sviðslistakona sem þegar hefur komið víða við. Hún hóf tónlistarnám 4 ára við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og lærði þar söng, píanó og fiðlu. Þaðan fór hún í Söngskólann í Reykjavík, lauk 7. stigi á píanó og 8. stigi í söng. Hún stundaði framhaldsnám í klassískum söng einn vetur við Tónlistarháskólann í Vínarborg en hélt síðan til Danmerkur og lauk BA gráðu í leiklist frá Alþjóðlega leiklistarskólanum í Kaupmannahöfn (CISPA) vorið 2020. Samhliða leikaranámi sínu stundaði hún einkatíma í söng hjá hinum ýmsu kennurum.

Sigríður hefur frá útskrift starfað óslitið sem sviðslistakona á íslandi, sem leikari, leikstjóri, höfundur, söngvari og listrænn ráðunautur ásamt því að kenna söng og sinna leikstjórn við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Söngskólann í Reykjavík.

Meðal leikstjórnarverkefna hennar má nefna óperurnar Varstu búinn að vera að reyna að ná í mig og Gleðilega geðlofsleikinn, eftir Guðmund Stein Gunnarsson, Kríukroppur, útskriftarverkefni Birtu Sólveigar Söring af leikarabraut í LHÍ vor 2024. Sigríður var aðstoðarleikstjóri Aðventu í leikstjórn Egils Ingibergssonar, sýnt í Borgarleikhúsinu 2023 og aðstoðarleikstjóri í Dýravísum í leikstjórn David Chocron, flutt af Kammeróperunni í Kaldalóni í Hörpu. Sigríður Skrifaði einnig leikgerðina að því verki, sem samin er í kring um samnefnt sönglag Jónasar Ingimundarsonar.

Sigríður er höfundur, framleiðandi og leikur titilhlutverkið í sýningunni DIETRICH, sem sýnd er í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll um þessar mundir. Sigríður var tilnefnd til Hvatningaverðlauna Grímunnar 2025 fyrir störf sín á leikárinu.

Einleikur Sigríðar, Hulið, sem sýndur var í Tjarnarbíói 2023 hlaut verðlaunin The Baltic Nordic Fringe Network Awards á RVK Fringe hátíðinni sama ár.




Sigríður leikstýrir
Mannsröddin