Ólína Ákadóttir

píanóleikari

Ólína Ákadóttir er ungur og efnilegur píanóleikari. Hún hóf tónlistarnám sitt hjá Þórunni Huldu Guðmundsdóttur við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og lærði seinna hjá Svönu Víkingsdóttur í Menntaskóla í tónlist. Hún lauk bachelornámi við Tónlistarháskóla Noregs hjá Christopher Park með eins árs skiptinámi í Tbilisi í Georgíu. Haustið 2025 hefur hún meistaranám í Konservatoríunni í Kaupmannahöfn.

Árið 2024 varð Ólína einn sigurvegara Ungra einleikara og flutti píanókonsert Jórunnar Viðar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í kjölfarið. Ólína hefur einnig komið fram sem einleikari með Master Orchestra Verona (2024), Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins (2023) og kammerhljómsveit nemenda Tónlistarháskóla Noregs (2023). Ólína hefur komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum á Íslandi og í Noregi, t.d. tónleikaröðinni Asker Kammerkonserter, Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði, Sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og Tónlistarhátíðinni Seiglu í Hörpunni. Ólína hlaut verðlaun í keppninni Ungdommens musikkmesterskap með kammerhópnum Trio Akostra 2025. Sama ár spilaði hún hljómsveitapartinn í óperunni Suor Angelica með sviðslistarhópnum Gjallandi.

Ólína er virk að koma eigin verkefnum á framfæri og leggur mikla áherslu á nýsköpun. Árið 2025 flutti hún tónleikana ,,Ferðasögur frá Georgíu” í fyrsta sinn í Hannesarholti og síðan þá hefur hún flutt tónleikana sjö sinnum á Íslandi og í Noregi. Ólína hefur þrisvar tekið þátt í skapandi sumarstörfum en sumarið 2025 setur hún saman söngleik byggðan á verkum eftir Jórunni Viðar ásamt Steinunni Maríu Þormar sópransöngkonu sem hluti af skapandi sumarstörfum í Kópavogi. Ólína stendur fyrir Máfinum tónlistarsmiðju ásamt Ásthildi Ákadóttur en nú hafa þær haldið 12 skapandi smiðjur fyrir börn víða um landið. Ólína hefur einnig staðið fyrir samstarfsverkefni á milli Listaháskóla Íslands og Tónlistarháskóla Noregs og skipulagt tónleikaferðalag til Íslands fyrir nemendur seinni skólans.




Ólína kemur fram á
Tröllkonan og töfraeyjan

Ólína er meðlimur  
Stundaróms